Veldu ár
Hús fyrir list – byggingarlist Kjarvalsstaða
Kjarvalsstaðir hafa hýst myndlist frá árinu 1973 og eru eitt fyrsta húsið sem hannað var sérstaklega fyrir myndlist hér á landi. Í fyrirlestrum og leiðsögnum er sjónum beint að byggingunni, sögu hennar og forsendum. Til að byggingarlist Kjarvalsstaða fá notið sín er vestursalur hússins nánast tómur og aðeins byggingarlistin sýnd. Undur rýmisins verða afhjúpuð bæði með myndum sem sýna hulin rými en einnig með módelum af húsinu.
Húsið er byggingarlistarlegt undur sem ástæða er til að gefa gaum. Ekki hefur alltaf ríkt friður um hönnun þess og hafa viðhorf manna mótast af tíðaranda hverju sinni. Ýmsar spurningar vakna um það hvernig samband listaverka og umgjarðar mótast bæði rýmislegar kröfur og ekki síður hugmyndalegt samband. Hvað þarf til að gera verkum hvers tíma skil? Hvernig er samband rýmis og verka?
Um arkitektinn
Hannes Kr. Davíðsson (1916-1995) var í orði og verki brautryðjandi nýrra viðhorfa í íslenskri byggingarlist á eftirstríðsárunum og kom fyrstur fram með hugmyndir og áherslur sem höfðu mótandi áhrif á þróun húsagerðar á 6. og 7. áratug 20. aldar. Hann beitti sér mjög í faglegum málefnum arkitekta og tók alla tíð virkan þátt í opinberri umræðu um skipulags- og byggingarmál.
Um arkitektúrinn
Við hönnun Kjarvalsstaða var Hannes undir áhrifum af japönskum innblæstri í norrænan módernisma, þar sem áhersla var lögð á ómeðhöndluð náttúruefni bygginga ásamt léttleika og einföldun allra drátta. Léttleika Kjarvalsstaða má lesa af burðarvirki hússins þar sem grannar súlur bera uppi lárétt, koparklætt þakið. Þetta gefur svigrúm til frelsis í útfærslu veggja þar sem þeir gegna engu hlutverki í burði þaksins.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.