Veldu ár
ID LAB - greining sjálfsmyndar
ID LAB er sýning á verkum myndlistarmanna sem taka þátt í hinni eilífu umræðu um sjálfsmyndir og ímyndir og nota til þess kraftmikil auðkenni tísku og hönnunar. Þau tengja hugmyndalegan heim verka sinna við öflugt tungumál tískunnar og ná þannig beinu sambandi við áhorfandann. Verkin eru fjölbreytt, viðfangsefnin margvísleg og einskorðast ekki við umgjörðina sem þau endurspegla heldur takast á við tíðarandann, hefðir og sjálfsmyndir samtímans.
Sýningin er á mörkum tveggja samsíða heima sem lúta ólíkum lögmálum en eiga sameiginlegar rætur og nátengd tungumál. Annars vegar heims myndlistar þar sem listamenn hlutgera hugmyndir og upplifanir sem þeir deila með umheiminum innan merkingarhlaðinna múra listheimsins. Hins vegar heims hönnunar þar sem hönnuðir spegla tíðaranda og umgjörð daglegs lífs í gegnum vöru og framleiðslu. Hér er dregin upp mynd af því sem greinir að hönnun og myndlist en fleira tengir þessa tvo heima en greinir þá að. Þó pólitísk og markaðsleg umgjörð geti verið ólík byggja myndlist og hönnun á sömu sjónrænu lögmálum og reiða sig á skapandi einstaklinga.
Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni takast á ólíkan hátt á við tíðaranda og sjálfsmyndir samtímans en notkun lita, forma og efnis tengja verkin út fyrir myndlistarheiminn og inn á svið hönnunar og tísku – þar sem myndmálið hefur verið afhelgað. Þau lúta lögmálum myndlistar um leið og þau tileinka sér heim tísku og hönnunar.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.