Veldu ár
Myndlistin okkar
Hvert er eftirlætis listaverkið þitt í safni Listasafns Reykjavíkur?
Síðastliðið vor var blásið til kosningaleiks á Betri Reykjavík undir yfirskriftinni Myndlistin okkar. Þar gafst fólki tækifæri til þess að velja listaverk á sýningu á Kjarvalsstöðum úr safneign Listasafns Reykjavíkur. Á samnefndri sýningu sem er opnuð á Menningarnótt eru þau verk sem hlutu flest atkvæði almennings til sýnis. Sýningarstjórn og verkaval er algerlega úr höndum safnsins og fjöldi verka ræðst af plássi í salnum. Úrvalið er fjölbreytt og áhugaverð blanda af listsköpun frá ólíkum tímum. Þar birtist einstök sýn á þessa sameign borgarbúa sem í heild telur 17 þúsund verk.
Kosningaverkefnið er hluti af 50 ára afmæli Listasafns Reykjavíkur, 1973-2023, þar sem safneigninni er gert hátt undir höfði með ýmsum hætti. Þau verk sem hlutu flest atkvæði eru Hringfarar eftir Önnu Rún Tryggvadóttur, Köttur III eftir Matthías Rúnar Sigurðsson og Uppspretta eftir Bryndísi Jónsdóttur. Samtals voru greidd 26.192 atkvæði og fjöldi verka sem fengu a.m.k eitt atkvæði er 2.396
Inni í sýningarsalnum er kubbur þar sem settar verða upp smásýningar undir heitinu Myndlistin þeirra. Þar býður safnið samstarfsaðilum sínum og fastagestum gegnum árin að velja saman verk eftir eigin höfði. Smásýningarnar standa aðeins rúma viku í senn og dreifast yfir sýningartímabilið. Gestasýningarstjórar eru Klambrar bistro, Bræðurnir Baldursson, Hlutverkasetur, Íslenski dansflokkurinn (sem einnig fagnar 50 ára afmæli í ár) og nemendur í Víkurskóla.
1. Pop-up sýning KLAMBRAR BISTRO 19.08.–29.08.
2. Pop-up sýning BRÆÐURNIR BALDURSSON 02.09.–12.09.
3. Pop-up sýning HLUTVERKASETUR 16.09.–26.09.
4. Pop-up sýning VÍKURSKÓLI 14.10.–29.10.
5. Pop-up sýning ÍSLENSKI DANSFLOKKURINN 30.09.–10.10.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.