6. febrúar 2016 - 13:00
25. febrúar 2016 - 13:00
26. febrúar 2016 - 13:00
19. mars 2016 - 13:30

Biophilia Solstice smiðja fyrir 10-12 ára

Ljósmynd: Helga Björg Gylfadóttir.
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Í tengslum við sýninguna Aftur í sandkassann - Listir og róttækar kennsluaðferðir í Hafnarhúsi fer fram vinnustofa fyrir fjölskyldur í samstarfi við Biophilia-menntaverkefnið, en það er þverfaglegt verkefni með aðkomu fræðimanna, vísindamanna, listamanna og kennara. Það byggir á því að hvetja börn og kennara til að nýta sköpunargáfuna með því að tengja saman tónlist, tækni og náttúruvísindi á nýstárlegan hátt. Nemendur læra með virkri þátttöku, tilraunum, leik og sköpun.

Næstkomandi laugardag mun jarðfræðingurinn og stjörnuáhugamaðurinn Sævar Helgi Bragason fjalla um þyngdarkraft og feril jarðar um sólkerfið, möndulhalla jarðar og áhrif hans á árstíðirnar. Tónlistarkonan og tónlistarkennarinn Ásta Björg Björgvinsdóttir skoðar hvernig tvær eða fleiri sjálfstæðar laglínur eru fléttaðar saman í lag og mynda heild. Saman tengja þau þetta tvennt, vinna tilraunir og skoða þessi fyrirbæri með aðstoð spjaldtölvuappa Biophilia verkefnis Bjarkar Guðmundsdóttur.

Biophilia menntaverkefnið er samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytis, norrænu ráðuherranefndarinnar, Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og Bjarkar Guðmundsdóttur.

Vinnustofan er ókeypis og ætluð börnum á aldrinum 10-12 ára. Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður. Skráning og nánari upplýsingar veitir fræðsludeild í síma 411 6400 eða á fraedsludeild@reykjavik.is

 

 

 

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.