Fjölskylduleiðsögn um sýningu Hildar Bjarnadóttur: Vistkerfi lita
Verkin á sýningunni eru afrakstur áhugaverðs ferlis þar sem Hildur notast við íslenska jurtir til litunar. Hún vefar málverk úr handlituðum þráðum og skapar hálfgert völundarhús úr jurtalituðum silkidúkum. Á sýningunni mynda verk Hildar heildar innsetningu í vestursal Kjarvalsstaða. Þessi forvitnilega sýning hefur að geyma fjöldan allan af ólíkum plöntum en ekki í þeirri mynd sem við þekkjum þær helst, því listakonan býr til liti úr plöntunum í verk sín með áhugaverðri útkomu. Þetta munum við skoða nánar og velta fyrir okkur hvernig blágresi og berjalyng fá nýtt líf í listaverkum hennar.
Una Margrét Árnadóttir, myndlistarmaður, leiðir börn og foreldra í gegnum sýninguna og fær þau til þátttöku í gegnum leit og leik. Leiðsögnin sem fer fram á íslensku er haldin í tilefni af haustfríi í grunnskólum Reykjavíkur og er þátttaka ókeypis.