Friðarfundur: Rauði krossinn um málefni flóttamanna
Næstkomandi fimmtudagskvöld verður haldinn annar af sex Friðarfundum í Listasafni Reykjavíkur. Þeir tengjast sýningadagskrá haustsins í Hafnarhúsi þar sem listamenn fjalla um frið, stíð og afleiðingar þess. Á Friðarfundum kynna ólík samtök áherslur sínar í friðar- og mannúðarmálum og er kvöldið tileinkað Rauða krossinum.
Hrafnhildur Sverrisdóttir, verkefnastjóri alþjóðaverkefna á Hjálpar- og mannúðarsviði hjá Rauða krossinum á Íslandi, mun segja frá helstu þáttum mannúðarlaga, sem eru þau alþjóðalög er gilda í stríði og miða að því að vernda þá sem ekki taka beinan þátt í átökum. Hiba Al Jaraki, mannréttindalögfræðingur frá Sýrlandi, sem kom sem flóttamaður til Íslands í byrjun þessa árs, mun segja frá lífi sínu í stríðshrjáðu heimalandinu og sameiningu fjölskyldunnar á Íslandi. Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í móttöku kvótaflóttamanna hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins, stýrir fundinum og umræðum í lokin.
Rauði krossinn byggir á grundvallarhugsjónum um mannúð, hlutleysi, óhlutdrægni, sjálfstæði og sjálfboðna þjónustu. Tilgangur hreyfingarinnar er að vernda líf og heilsu berskjaldaðra hópa og tryggja virðingu fyrir mannlegu lífi. Rauði krossinn gegnir jafnframt sérstöku eftirlitshlutverki við að farið sé að Genfarsamningunum á átakasvæðum.
Friðarfundir eru haldnir á fimmtudögum kl. 20 í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Þeir fara fram á íslensku og eru öllum opnir endurgjaldslaust.
Dagskrá Friðarfunda:
Fimmtudagur 10. nóv. kl. 20:00 – SGI mannúðar og friðarsamtök búddista
Fimmtudagur 17. nóv. kl. 20:00 – Rauði krossinn
Fimmtudagur 24. nóv. kl. 20:00 – Samtök hernaðarandstæðinga
Fimmtudagur 1. des. kl. 20:00 – Amnesty International
Fimmtudagur 8. des. kl. 20:00 – Félagið Ísland-Palestína
Fimmtudagur 15. des. kl. 20:00 – HÖFÐI Friðarsetur