2. maí 2021 - 14:00

Leiðsögn sýningarstjóra: Eilíf endurkoma

Leiðsögn sýningarstjóra: Eilíf Endurkoma
Staður viðburðar: 
Kjarvalsstaðir

Edda Halldórsdóttir sýningarstjóri verður með leiðsögn um sýninguna Eilíf endurkoma á Kjarvalsstöðum.

Athugið að skráning er nauðsynleg HÉR.

Á þessari viðamiklu sýningu mynda verk Jóhannesar S. Kjarvals (1885-1972) þráð sem tengir tvenna tíma. Hér er verkum hans teflt fram ásamt verkum myndlistarmanna sem sett hafa svip sinn á íslenskt listalíf síðustu ár.

Algengasta og ástkærasta myndefni Kjarvals var íslensk náttúra og landslag en auk þess gerði hann mikið af mannamyndum og fantasíum þar sem verur og fígúrur skjóta upp kollinum og ýmis náttúrufyrirbrigði eru persónugerð. Verk listamanna á sýningunni eru unnin í fjölbreytta miðla og þar má sjá ólíka nálgun að þessum viðfangsefnum.

Kjarval skipar stóran sess í íslenskri menningar- og listasögu og hefur verið síðari kynslóðum listamanna fyrirmynd og innblástur. Persóna hans og lífsverk svífur yfir vötnum og er það ekki að ósekju. Hjá Listasafni Reykjavíkur - Kjarvalsstöðum eru verk Kjarvals varðveitt og rannsökuð. Valin verk hans eru alltaf til sýnis og  settar upp fjölbreyttar sýningar sem varpa ljósi á feril hans á breiðum grunni. Gjarnan eru dregin fram verk úr safneign eða sérsýningar haldnar þar sem afmarkaðir þættir í ferli hans og listsköpun eru rannsakaðir. Á þessari sýningu eru verk Kjarvals sett í samtal við yngri verk starfandi listamanna. Sýningin býður því upp á að kynnast enn betur einum merkasta listamanni þjóðarinnar en einnig verkum starfandi listamanna í fremsta flokki sem hafa sett mark sitt á íslenska og alþjóðlega myndlistarsenu. 

Sýningarstjórar: Edda Halldórsdóttir, Markús Þór Andrésson og Ólöf K. Sigurðardóttir.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.