14. janúar 2021 - 20:00

Listamenn um listamenn: Einar Örn Benediktsson – BEINT STREYMI

Einar Örn Benediktsson, ljósmynd Einar Snorri.
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

BEINT STREYMI VERÐUR FRÁ VIÐBURÐINUM Á FACEBOOK.

Það er fullbókað á þennan viðburð miðað við þær fjöldatakmarkanir sem nú eru í gildi.

Í tilefni af sýningunni Gilbert & George: THE GREAT EXHIBITION hefur Listasafn Reykjavíkur leitað til nokkurra listamanna til að ganga með gestum um sýninguna og segja frá einstaka verkum og sýningunni út frá sínu sjónarhorni.

Listamannatvíeykið Gilbert & George eru eitt skapandi afl. Þeir hafa unnið saman í meira en fimm áratugi - einstök verk þar sem daglegt líf og myndlist sameinast í einu mengi. Þeir hafa haft mótandi áhrif á myndlist samtímans og eru þekktir fyrir að ryðja braut gjörningalistar og nálgast einkalíf sitt sem listaverk. Þeir hafa ögrað ríkjandi borgaralegum hugmyndum um smekk og velsæmi og ekki síst stuðlað að breyttum viðhorfum til samkynhneigðra og annarra minnihlutahópa. Sýningin í Hafnarhúsinu veitir yfirgripsmikla sýn yfir feril Gilbert og George. 

Einar Örn Benediktsson (f. 1962) er listamaður og frumkvöðull frá Reykjavík. Hann hefur verið verið leiðandi hvati og spilað mikilvægt hlutverk í íslensku lista- og menningarlífi frá því á síðari hluta áttunda áratugarins. Á meðan hann stundaði nám í fjölmiðlafræði við háskólann í Westminster tók Einar Örn þátt í ötulu anarkó pönk tónlistarlífinu í Bretlandi sem leiddi til tilkomumikils tónlistarferils með Kukl og síðar Sykurmolunum. Eftir að hafa búið um nokkurra ára skeið í London þekkir hann borgina í þaula og það umhverfi sem Gilbert & George spretta úr. Hann hefur einnig góða innsýn inn í það hvernig Gilbert & George tala inn í dægurmenningu og hvernig þeir hafa haft áhrif á strauma og stefnur í tísku og tónlist.

Í listsköpun sinni hefur Einar Örn unnið með marga miðla; hljóðlist, gjörninga, orð, tónlist og margmiðlun en einbeitir sér nú að verkum á pappír, stórar veggmyndir og textílprentun. Allt tengist svo í gegnum gáskafulla leið hans til að segja sögur sem á sama tíma skemmta og rugla. Teikningar Einars Arnar, sem eru persónulegar daglegar hefðir, kanna frásagnir og raunverulegar aðstæður með svo einstökum stíl og frásögn að það jaðar við að vera súrrealískt og í anda dada.

Einar Örn hefur sýnt á alþjóðavettvangi og hér á landi. Hann var fenginn til að gera ný verk fyrir Performa 09 og TB-A21 með tilraunahljómsveit sinni Ghostigital sem er samstarf hans og listamanns / tónlistarmannsins Curver Thoroddsen.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.