5. febrúar 2021 - 10:00
Ný sýning – Hulda Rós Guðnadóttir: WERK – Labor Move
Staður viðburðar:
Hafnarhús
Á einkasýningu sinni í A-sal Listasafns Reykjavíkur – Hafnarhúsi beinir Hulda Rós Guðnadóttir (f. 1973) sjónum að samfélagslegum viðfangsefnum í staðbundinni innsetningu. Innsetningin WERK – Labor Move er unnin sérstaklega fyrir salinn en Hafnarhúsið var upphaflega byggt sem vörugeymsluhús á hafnarbakkanum.
Verkið samanstendur af þriggja rása kvikmyndaverkinu Labor Move, skúlptúrum er beintengjast kvikmyndaverkinu, og myndbandsupptöku af vinnu við samsetningu skúlptúranna í salnum sjálfum í aðdraganda sýningaropnunar.
Til grundvallar sýningunni liggur skoðun á virkni hins marglaga alþjóðahagkerfis og er sjónarhorn hins kunnuglega og staðbundna tekið til þess að greina og varpa upp samhengi hér á landi við hið hnattræna.
Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.