Opnun Haustlauka II | Styrmir Örn Guðmundsson: Stjörnuliljur
Lífi verður blásið í veggverkið með gjörningi sem markar upphaf Haustlauka II.
Styrmir Örn Guðmundsson (f. 1984) er maður frásagna og gjörninga auk þess sem hann syngur, býr til hluti og teiknar. Hann laðast að hinu fjarstæðukennda að því leytinu til að hann hefur ástríðu sem jaðrar við þráhyggju fyrir hinu fáránlega, bjánalega eða skrítna, en á sama tíma hefur hann blítt og hugulsamt viðhorf gagnvart því: hugsar vel um hið fjarstæðukennda, hjálpar því að þroskast, gefur því rými þar sem það getur bæði orkað stuðandi og þægilegt. Oftar en ekki byggir Styrmir verk sín á rituðu máli sem hann umbreytir í lifandi gjörning og virkjar þannig hluti og látbragð. Frásögn gjörningsins, oft í formi einræðu, varpar ljósi á sjálfstæða listmuni. Styrmir er nú í vinnustofudvöl við Künstlerhaus Bethanien og býr í Berlín.
Dýrð sólarinnar er eitt, dýrð tunglsins önnur og enn önnur er stjörnudýrðin; vegna þess að hver hnöttur er einstakur í ljóma sínum. Sumar stjörnur eru okkur kærari en aðrar. Tilfinning okkar fyrir þeim ræðst af mynstrinu. Þar sem jörðin hringsólar umhverfis sólina sjáum við sólina og sömu stjörnur ár eftir ár – dýrahring stjörnumerkjanna. Öldum saman hafa þessi stjörnumerki verið mikilvæg tákn í sögum okkar hvert af öðru. Hvert einasta mannsbarn er fætt undir einhverju þessara merkja. Merkið þitt í dýrahringnum er afmælisgjöf okkar frá stjörnunum. Við berum þó einnig í okkur einkenni annarra merkja, í mismiklu magni. Líkaminn ferðast frá einu stjörnumerki til annars. Fjarlægðin er gríðarleg en á meðan stjörnur lýsa upp himininn mun okkur vel farnast.
Listasafn Reykjavíkur efnir á haustdögum öðru sinni til samsýningar á nýrri myndlist í almannarými. Verk átta listamanna birtast á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt víða um Reykjavík og í því sameiginlega rými sem tækni samtímans býður upp á. Um er að ræða gjörninga, inngrip og uppákomur af ýmsu tagi sem kallast á við samfélagslegt rými, opinveran vettvang, stræti, torg og byggingar sem við deilum í sameiningu. Verkin eru meira og minna unnin í óáþreifanlega miðla; Haustlaukarnir skjóta rótum víða og spretta upp við óvæntar aðstæður. Viðfangsefni þeirra átta listamanna sem taka þátt í sýningunni eru fjölbreytt en eiga það öll sameiginlegt að varpa ljósi á eða spyrja spurninga um daglegt umhverfi íbúa borgarinnar og gesta hennar. Þar er fjallað um mörk einka- og almenningsrýmis, eignarhald og frelsi auk þess sem reynt er að fá fólk til þess að staldra við, líta í kringum sig og sjá umhverfið í nýju ljósi. Loks smitast óhjákvæmilega inn í verkin þær breytingar sem orðið hafa á þessu ári og snúa að daglegum samskiptum og venjum á tímum farsóttar. Sum verk eru aðeins flutt einu sinni á meðan önnur eiga sér lengri eða tíðari tilvist. Dagskrá sýningarinnar má kynna sér í sýningarskrá, á samfélagsmiðlum safnsins eða dagskrársíðu þess.