24. september 2020 - 10:00 til 18. október 2020 - 23:00

Rósa Sigrún Jónsdóttir: Hending

Rósa Sigrún Jónsdóttir: Hending
Staður viðburðar: 
Álfheimakjarni, Álfheimar 2

Rósa Sigrún hefur talsvert unnið með textíl í sínum verkum. Hún hefur unnið innsetningar þar sem textílskúlptúrar og þræðir yfirtaka rýmið, en einnig fengist við að blanda saman blýantsteikningum og útsaumi. Í þessari vinnu hafa þróast vangaveltur og tilraunir með línuna í mismunandi formi. Í veggverkinu Hending málar Rósa ullarþráð með neonlitum sem grípa dagsbirtuna af áfergju en dýfir þræðinum svo í lím sem hann drekkur í sig. Þá lætur hún límvotan þráðinn falla tilviljanakennt á hart undirlag þar sem hann þornar og myndar línuteikningu. Svona hefur orðið til stafli af teikningum sem nú má sjá renna saman í eitt verk á vegg við Álfheima.
 
Rósa Sigrún Jónsdóttir (f. 1962) útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands 2001. Hún hefur haldið einkasýningar á Íslandi og erlendis og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Nú á síðustu árum má nefna Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Íslands, The Metropolitan Arts Center in Belfast , Art Stays listahátíðina í Slóveníu, Kajaani Art Museum í Finnlandi og Cartavetra gallerí í Flórens. Á þessum stöðum hafa viðfangsefni hennar einkum verið textíltengdar innsetningar og skúlptúrar þar sem möguleikar miðilsins hafa verið kannaðir.

Listasafn Reykjavíkur efnir á haustdögum öðru sinni til samsýningar á nýrri myndlist í almannarými. Verk átta listamanna birtast á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt víða um Reykjavík og í því sameiginlega rými sem tækni samtímans býður upp á. Um er að ræða gjörninga, inngrip og uppákomur af ýmsu tagi sem kallast á við samfélagslegt rými, opinveran vettvang, stræti, torg og byggingar sem við deilum í sameiningu. Verkin eru meira og minna unnin í óáþreifanlega miðla; Haustlaukarnir skjóta rótum víða og spretta upp við óvæntar aðstæður. Viðfangsefni þeirra átta listamanna sem taka þátt í sýningunni eru fjölbreytt en eiga það öll sameiginlegt að varpa ljósi á eða spyrja spurninga um daglegt umhverfi íbúa borgarinnar og gesta hennar. Þar er fjallað um mörk einka- og almenningsrýmis, eignarhald og frelsi auk þess sem reynt er að fá fólk til þess að staldra við, líta í kringum sig og sjá umhverfið í nýju ljósi. Loks smitast óhjákvæmilega inn í verkin þær breytingar sem orðið hafa á þessu ári og snúa að daglegum samskiptum og venjum á tímum farsóttar. Sum verk eru aðeins flutt einu sinni á meðan önnur eiga sér lengri eða tíðari tilvist. Dagskrá sýningarinnar má kynna sér í sýningarskrá, á samfélagsmiðlum safnsins eða dagskrársíðu þess.

 

Sýning: 
Verð viðburðar kr: 
0