3. júní 2017 - 16:00

Sýningaropnun – Ragnar Kjartansson: Guð, hvað mér líður illa

Ragnar Kjartansson, Heimsljós (stilla).
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnar sýninguna.

Ragnar Kjartansson heldur sína fyrstu safnsýningu á heimavelli eftir sigurför á erlendri grundu á undanförnum árum. Þar á meðal eru meiriháttar yfirlitssýningar í virtum söfnum báðum megin við Atlantshafið. Þegar hér er komið sögu á ferli listamannsins kann titillinn Guð, hvað mér líður illa að koma nokkuð á óvart. En Ragnar talar ekki aðeins fyrir sjálfan sig heldur okkur áhorfendur með því að minna á hjálpræði listarinnar. Þetta sést vel í opnunarverkinu, hinum fyrsta af þremur lifandi gjörningum á sýningartímabilinu, sem ber heitið Til tónlistarinnar, 2012 Það byggist á ljóðlínum Schobers sem gefur í skyn að listin geti flutt okkur öll á betri stað, „frá drunga heims til drottins himinvega“.

Samhliða sýningunni kemur nú út á íslensku vegleg bók um Ragnar sem kom út hjá Koenig forlaginu samhliða sýningu Ragnars í Barbican safninu í London í fyrra. Í bókinni segir Ragnar ævisögu sína í máli og myndum, þar er að finna greinar eftir Markús Þór Andrésson, Anne Carson, Kelly Gordon og Jeffrey Kastner. Bókin er 240 blaðsíður og verður seld í safnbúðum Listasafns Reykjavíkur.