Undir sama himni og Skúlptúr og nánd: Leiðsögn sýningastjóra
Sýningarstjórarnir Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna, og Yean Fee Quay, verkefnastjóri sýninga, verða með leiðsögn um sýningarnar Ásmundur Sveinsson: Undir sama himni – list í almenningsrými og Sigurður Guðmundsson: Skúlptúr og nánd.
Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Af því tilefni verður lögð áhersla á útilistaverk í Ásmundarsafni á árinu.
Sett er upp sýning á verkum Ásmundar Sveinssonar (1893-1982) í hluta safnsins sem stendur út árið. Verkin á sýningunni eru bæði frummyndir verka sem standa úti í almenningsrými eða verk sem tengjast þeim.
Samhliða sýningu Ásmundar er sýning á verkum Sigurðar Guðmundssonar (1942). Víða er að finna stórar höggmyndir eftir Sigurð í opnu rými, bæði á Norðurlöndum og Mið-Evrópu. Sigurður hefur unnið fjölmargar samkeppnir og má þar nefna samkeppni um útilistaverk við Barnaspítala Hringsins og útilistaverk á vegum Reykjavíkurborgar í tilefni aldamótanna. Hann býr og starfar í Reykjavík, Kína og Hollandi.
Aðgöngumiði á safnið gildir.