Ekki brotlent enn: Gjörningur og síðasta sýningarhelgi

Ekki brotlent enn: Gjörningur og síðasta sýningarhelgi

Síðasti dagur sýningarinnar D41 Ekki brotlent enn eftir Andreas Brunner er sunnudagurinn 7. júní. Föstudaginn 5. júní kl. 14.30 og 15.20 mun fara fram gjörningur sem er hluti af sýningu Andreas Brunner, Ekki brotlent enn. Gjörningurinn tekur um hálftíma.

Andreas forðast fullkomleika og samhverfu en laðast að hinu gallaða og brotakennda. Honum er hugleikin hugmyndin um stöðuga framvindu og umbreytingu, sem samt sem áður tekur á sig birtingarmynd hringrásar. Einhvers konar spíralhreyfing sem ætlar engum botni að ná og brotlendir því aldrei.

Andreas er fæddur árið 1988 í Zürich í Sviss en býr og starfar í Reykjavík. Hann nam myndlist við Lucerne University of Applied Science and Arts og stundaði framhaldsnám Listaháskóla Íslands, þaðan sem hann útskrifaðist árið 2018.

Sýningaröðin í D-sal hóf göngu sína árið 2007. Hér er listamönnum sem hafa mótandi áhrif á íslenska myndlistarsenu boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni. Andreas Brunner er 41. listamaðurinn til að sýna í sýningarröð Listasafns Reykjavíkur í D-sal.