Hafnarhúsið 20 ára

Hafnarhús, ljósmynd: Hildur Inga Björnsdóttir.

Nú eru 20 ár eru síðan myndlistin nam land á hafnarbakkanum og Listasafn Reykjavíkur opnaði dyr sínar að Hafnarhúsi þann 19. apríl árið 2000.

Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi hefur fest sig í sessi sem miðstöð samtímamyndlistar í borginni en þar er einnig aðsetur Erró-safns og sýningar á verkum hans ætíð aðgengilegar.

Aðdragandi opnunar safnsins var listaverkagjöf Errós til Reykjavíkurborgar en drifkraftur voru líka hugmyndir um að safnið og menningarstafsemin sem því fylgir hefði jákvæð áhrif á mannlíf í miðborginni og ekki síður á hafnarsvæðinu.

Nú 20 árum síðar er safnið ekki lengur á jaðri miðborgarinnar heldur í hjarta mannlífsins og mikilvægur viðkomustaður borgarbúa og gesta þeirra. 

Á þessum tuttugu árum hafa verið haldnar í safninu tímamótasýningar þar sem gestir á öllum aldri haf kynnst fjölbreytileika myndlistar, allt frá stórstjörnum samtímalistarinnar til verka listamanna grasrótarinnar. 

Mikill fjöldi listamanna frá öllum heimshornum hefur sýnt verk sín á hátt í tvöhundruð myndlistarsýningum í húsinu og rúmlega tvær milljónir gesta hafa notið þeirra.

Þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi borgarstjóri, færði þáverandi safnstjóra Listasafns Reykjavíkur, Eiríki Þorlákssyni, lyklavöldin að húsinu, sagðist hún vona að húsið hefði svo margar vistarverur að þar fengju allir straumar og stefnur þrifist.  

Við höldum upp á tímamótin í skugga þess að safnið er lokað en hlökkum til þess að taka á móti borgarbúum á glæsilegar sýningar sem staðið hafa óséðar frá því í mars. Það hyllir undir opnun þann 4. maí.

Við þökkum samfylgdina - til hamingju með afmælið!