Listasafn Reykjavíkur í samkomubanni
Listasafn Reykjavíkur verður lokað frá og með morgundeginum 24. mars vegna samkomubanns. Við reiknum með að opna safnið aftur 14. apríl. Á meðan lokun varir viljum við koma til móts við gesti okkar með öðrum hætti og bendum á ýmsar leiðir til þess að njóta listarinnar.
Á morgun þriðjudag förum við af stað með listaverk dagsins, birtum af því mynd og upplýsingar á vefsíðu safnsins, Facebook og Instagram, og einnig verður laufléttur spurningaleikur á Instagram Story tengdur hverju verki fyrir sig.
Á vefsíðu safnsins eru Kahoot leikir sem áhugasamir geta spreytt sig á og hægt er að nota í fjarkennslu eða í fræðandi leik heima. Meira af fræðsluefni sem nýta má í fjarkennslu er þar að finna.
Við bendum fólki á að nýta sér safneignarsíðuna okkar þar sem skoða má listaverkin sem safnið varðveitir.
Á vefsíðu safnsins er hægt að skoða sýningar langt aftur í tímann. Á síðu hverrar sýningar fyrir sig er safnað saman efni tengdu sýningunni sem nýtist vel bæði til skemmtunar og fróðleiks. Sjá til dæmis nýliðna sýningu, Chromo Sapiens.
Á Vimeo og YouTube síðum Listasafns Reykjavíkur er að finna upptökur af fyrirlestrum og málþingum sem haldin hafa verið á vegum safnsins og viðtöl við listamenn.
Það er einnig hægt að njóta listarinnar úti undir beru lofti og er þá APPið okkar góða um útilistaverkin tilvalið. Það heitir Útilistaverk í Reykjavík eða Reykjavík Art Walk og er hægt að hlaða niður í iOS og Android símtæki. Þar eru að auki hljóðleiðsagnir og leikir.
Friðarsúlan í Viðey mun lýsa upp næturhimininn þessa viku, nú eru jafndægur á vori og dagurinn um það bil jafnlangur og nóttin hvar sem er á jörðinni.