Strætó skreyttur verki Errós keyrir um götur Reykjavíkur í sumar

Sprengikraftur mynda, yfirlitssýning á verkum Errós var opnuð 9.apríl sl. í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi. Hér er á ferðinni umfangsmesta sýning sem sett hefur verið upp á verkum listamannsins hérlendis en listamaðurinn fagnar 90 ára afmæli sínu þann 19. júlí n.k. 

Í tilefni sýningarinnar og afmæli Errós þá tóku Listasafn Reykjavíkur og Strætó höndum saman og skreyttu strætisvagn með broti úr listaverkinu „Vísindaskáldskaparvíðátta“ frá árinu 1992.  Erró strætisvagninn mun aka á mismunandi leiðum Strætó og lífga upp á umhverfi Reykjavíkurborgar í öllum hverfum borgarinnar. 

Á sýningunni Sprengikraftur mynda má finna fjölbreytt verk, allt frá gjörningum, vídeólist, grafík, fjölfeldi og klippimyndum, til stórra verka í almannarými og málverka á öllum skala, sem hafa unnið honum verðugan sess í evrópskri listasögu. Sýningin verður opin í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi til 29. september 2022.