Erró
Guðmundur Guðmundsson, öðru nafni Erró (f. 1932), er tvímælalaust einn þekktasti samtímalistamaður Íslendinga. Eftir nám á Íslandi innritaðist hann í listaakademíuna í Osló tvítugur að aldri. Árið 1954 stundað hann nám við listaakademíuna í Flórens og síðan í Ravenna þar sem hann lagði áherslu á gerð mósaíkmynda. Hann fluttist til Parísar árið 1958 og var þar tekið opnum örmum í hópi súrrealista.
Árið 1963 fór Erró í fyrsta sinn til New York og komst í kynni við popplistina sem þá var að ryðja sér til rúms. Næstu ár fékkst hann við ýmiss konar listform, svo sem gjörningalist og tilraunakennda kvikmyndagerð auk málaralistar. Hann varð brátt einn af forvígismönnum popplistarinnar og evrópska frásagnarmálverksins (narrative figuration). Erró hefur búið í París í rúm sextíu ár en dvelur yfirleitt hluta úr vetri í Taílandi og á sumrin í húsi sínu í Formentera á Spáni.
Árið 1989 gaf Erró Reykjavíkurborg stórt safn verka sinna, um 2000 talsins. Í því safni er meðal annars að finna málverk, vatnslitamyndir, grafíkverk, skúlptúra, klippimyndir og önnur listaverk sem spanna allan feril listamannsins allt frá æskuárum. Auk listaverkanna gaf Erró borginni umfangsmikið safn einkabréfa og annarra gagna sem snerta listferil hans. Þessar ríkulegu heimildir hafa mikið gildi fyrir allar rannsóknir sem snerta listamanninn Erró og samtíma hans.
Safnið hefur vaxið jafnt og þétt síðustu árin því að Erró hefur haldið áfram að bæta við gjöfina og keypt hafa verið verk í safnið - sem telur nú um 4000 listaverk. Sýningar á safni Errós eiga sér fastan sess í Hafnarhúsinu, en með þeim er leitast við að gefa sem besta mynd af fjölbreyttum áherslum í verkum listamannsins.