Veldu ár

2024 (7)
2023 (21)
2022 (16)
2021 (21)
2020 (21)
2019 (27)
2018 (19)
2017 (21)
2016 (18)
2015 (20)
2014 (19)
2013 (17)
2012 (17)
2011 (22)
2010 (26)
2009 (25)
2008 (24)
2007 (26)
2006 (14)
2005 (16)
2004 (24)
2003 (32)
2002 (18)
2001 (20)
2000 (19)
1999 (13)
1998 (11)
1997 (14)
1996 (17)
1995 (17)
1994 (17)
1993 (22)
1992 (27)
1991 (24)
1990 (24)
1989 (25)
1988 (38)
1987 (38)
1986 (26)
1985 (28)
1984 (34)
1983 (28)
1982 (30)
1981 (26)
1980 (27)
1979 (21)
1978 (23)
1977 (21)
1976 (24)
1975 (19)
1974 (11)
1973 (11)
20.01.2011
10.04.2011

Án áfangastaðar

Kveikjan að verkefninu Án áfangastaðar er hinn ört vaxandi straumur innlendra og erlendra ferðamanna um Ísland sem gefur tilefni til að velta fyrir sér áleitnum spurningum um ferðamennskuna sjálfa. Hvað dregur fólk á framandi slóðir? Hvernig skynjar fólk umhverfið á ferðalagi? Hver eru tengsl ímyndar og upplifunar? Fjölmargir myndlistar- og fræðimenn samtímans hafa skoðað samband manns og umhverfis í þessu samhengi og varpa þær rannsóknir ljósi á ólíka þætti sem koma við sögu í upplifun ferðalangsins. Hér gefst kostur á að kynnast verkum þeirra annars vegar á sýningu þar sem ferðaþrá og (ferðamanna)staðir koma við sögu og hins vegar á ráðstefnu tileinkaðri náttúrutengdri ferðamennsku.

Útgangspunktur sýningarinnar er ferðahugurinn og upplifun ferðamannsins á því umhverfi sem verður á vegi hans eða hennar. Íslenskir og erlendir listamenn vinna út frá ólíkum tengslum við staði sem eru ýmist fjarlægir eða nálægir hvort heldur í tíma eða rúmi. Verkin endurspegla hugmyndir samtímalistamanna um ferðalög, staði og staðleysur í huglægum og landfræðilegum skilningi. Þau beina sjónum að hinu skapandi og persónulega samtali sem á sér stað við upplifun ólíkra staða og mótar hugmyndir okkar um þá. Mörg verkanna tengjast Íslandi og gefa til kynna bæði á kunnuglegan og framandi hátt hversu fjölbreyttum augum líta má á sömu slóðir. Þannig eru á sýningunni verk sem takast á við hvernig miðla megi reynslu annarsstaðar frá en um leið felst í þeim tilraun til að stuðla að upplifun fyrir áhorfandann hér og nú. Eins og sagt hefur verið svo marg oft áður er það ferðalagið sjálft sem skiptir máli en ekki áfangastaðurinn.

Practicing Nature-Based Tourism er alþjóðleg, þverfagleg ráðstefna tileinkuð fræðslu um náttúrutengda ferðamennsku og umræðu um Ísland sem áfangastað ferðamanna. Hún er hugsuð sem tækifæri fyrir innlenda og erlenda rannsakendur á ýmsum sviðum náttúrutengdrar ferðamennsku að koma niðurstöðum sínum á framfæri til samfélagsins. Á mælendaskrá verða ferðamálafræðingar, landfræðingar, sagnfræðingar, félagsfræðingar, umhverfisfræðingar, listfræðingar og markaðsfólk úr ferðageiranum. Á eftir þéttskipaðri fræðsludagskrá verða pallborðsumræður, þar sem rætt verður um þær áskoranir sem blasa við ferðamannalandinu Íslandi – hvar það stendur og hvert það stefnir nú á tímum aukins ferðamannastraums og álags. Pallborðið verður skipað helstu ráðamönnum íslensku ferðaþjónustunnar, ásamt fagfólki í greininni og sérfræðingum á þessu sviði. Þau munu reifa helstu áskoranir íslenskrar ferðaþjónustu frá bæjardyrum síns fags. Fræðsludagskráin fer fram á ensku þar sem frummælendur eru hvattir til að tala í almennu máli en umræðufundurinn á íslensku. Í kjölfarið verður gefin út sérútgáfa fræðiritsins Landabréfið, tímariti Félags Landfræðinga, með völdum erindum frá ráðstefnunni.

Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar eru Lucy R. Lippard,  Galisteo, New Mexico, rithöfundur, sýningarstjóri og samfélagsrýnir, Prof. Paul Cloke, landfræðingur hjá University of Exeter og Dr. Tim Edensor, landfræðingur hjá Manchester Metropolitan University.

Höfundar Án áfangastaðar verkefnisins eru Markús Þór Andrésson, sýningarstjóri og Gunnþóra Ólafsdóttir, landfræðingur, sem vinna verkið í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur, ReykjavíkurAkademíuna og Félag landfræðinga. Verkefnið er styrkt af Reykjavíkurborg, ReykjavíkurAkademíunni, Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Norræna menningarsjóðum og Íslandsstofu.

Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.