Veldu ár
Attersee: Dansleikur í Skyrtudal
Christian Ludwig, sem snemma á ferli sínum tók upp listamannsnafnið Attersee, fæddist í Bratislava í Slóvakíu árið 1940. Á árunum 1957‒1963 stundaði hann listnám í Vínarborg þar sem hann seinna kynntist forsprökkum „Vínar-aksjónismans“ (Wiener Aktionismus: Günter Brus, Otto Muehl, Hermann Nitsch, Arnulf Rainer o.fl.) og fjöllistamanninum Dieter Roth. Upp úr miðjum sjöunda áratugnum skapar hann furðulega ef ekki absúrd listhluti, oft með erótísku ívafi, sem hann átti eftir að yfirfæra yfir á pappír og léreft. Í fyrstu gerir hann teikningar og málverk, snilldarlega vel unnin og full of kímni, sem minna á myndmál klippimynda og popplistarinnar þó með súrrealísku ívafi. Á áttunda áratugnum verða verk hans smám saman hispurslausari, sjálfsprottnari og öfgakenndari, í takt við þá nýju expressjónísku list sem óx fram í Þýskalandi um svipað leyti og kennd er við listhreyfinguna „Nýir Villtir“ (Neue Wilde: Bernd Koberling, Markus Lupertz, Rainer Fetting, Martin Kippenberger, Albert og Markus Oehlen-bræður).
Christian Ludwig Attersee er oft lýst sem einum fjölhæfasta listamanni Austurríkis þar sem hann er ekki síður þekktur sem tónlistarmaður, rithöfundur, hönnuður, kvikmyndagerðarmaður, sviðshönnuður og kennari. Hann hefur tekið þátt í fjölmörgum sýningum víðs vegar um heiminn, en sérstaklega eftirminnilegt er þegar hann tók þátt í Documenta VI árið 1977 og eins er mörgum minnisstætt er hann var fulltrúi Austurríkis á Feneyjatvíæringnum árið 1984. Albertina-safnið í Vínarborg heiðraði hann með stórri sýningu á grafíkverkum hans árið 1997. Árið 2002 skipulagði Stedelijk-safnið í Amsterdam yfirlitssýningu á verkum hans og í ár efndi Museum der Moderne Rupertinum í Salzburg til sýningar á ljósmyndaverkum hans.
Á sýningunni sem fengið hefur yfirskriftina Dansleikur í skyrtudal má sjá úrval úr safni 63 grafíkverka frá árunum 1970 til 2010 sem Attersee og austurríski galleristinn Ernst Hilger hafa nýverið gefið Listasafni Reykjavíkur.
Sýningarstjóri: Danielle Kvaran
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.