Veldu ár
D29 Anna Hrund Másdóttir: Fantagóðir minjagripir
Tuttugasti og níundi listamaðurinn í D-salarröð Listasafns Reykjavíkur Hafnarhúsi er Anna Hrund Másdóttir. Anna Hrund leitar að listinni í sínu nánasta umhverfi og gerir tilraunir til að sameina undirmeðvitund og íhugun raunverulegum hlutum. Anna Hrund finnur hluti úr ýmiss konar landslagi, geymir þá og flytur milli heimila og heimsálfa. Hún tekur hlutina í sundur og endurraðar, og færir okkur vönd - uppstillingu af uppgötvunum úr raunveruleikanum.
Anna Hrund hefur verið virk í listalífi Reykjavíkur og tekið þátt í ýmsum verkefnum. Hún hélt einkasýninguna Donut Galaxy, Kleinuhringjavetrarbraut, í Listamönnum galleríi árið 2013, tók þátt í samsýningunum LOOK AROUND YOU, EXPERIMENT ONE í Kunstschlager árið 2014 og Nacho Cheese í Kling & Bang galleríi árið 2013. Anna Hrund hefur einnig tekið þátt í samsýningum í Bandaríkjunum, bæði í Los Angeles og Miami.
Anna Hrund (f. 1981) býr og starfar í Los Angeles og Reykjavík. Hún lærði myndlist við Listaháskóla Íslands, Mountain School of Art og lauk MFA námi frá California Institute of the Arts vorið 2016. Auk þess að starfa sem myndlistarmaður er Anna Hrund meðlimur í Kling & Bang. Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.
Í D-sal Hafnarhússins eru að jafnaði sýnd verk eftir listamenn sem ekki hafa áður haldið einkasýningar í stærri söfnum landsins. Markmið sýningaraðarinnar er að gefa efnilegum listamönnum tækifæri til að vinna innan veggja safnsins og beina athygli gesta að nýjum og áhugaverðum hræringum innan listheimsins. Á árinu 2017 eru áætlaðar alls fjórar sýningar í sýningaröðinni.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.