Veldu ár
D30 Ragnar Þórisson: Mannslíki
Málverk Ragnars eru afrakstur áralangra tilrauna hans þar sem hann málar iðulega manneskjur í hlutlausu umhverfi. Uppstillingar hans sýna fólk á margræðan hátt, sveipað dulúðugu andrúmslofti. Þar blandast stórir, marglaga litafletir við fínlega teikningu. Verkin eru óræð og gefa til kynna lágstemmda hreyfingu bæði í tíma og rúmi þannig að svo virðist sem listamaðurinn reyni að fanga eitthvað sem auganu er dulið alla jafna.
Í málverkum Ragnars sést móta fyrir manneskjum, sveipuðum dulúðugu andrúmslofti. Stórir, marglaga litafletir blandast við fínlega pensilskrift. Verkin eru margræð og gefa til kynna lágstemmda hreyfingu bæði í tíma og rúmi þannig að svo virðist sem listamaðurinn reyni að fanga eitthvað sem auganu er dulið alla jafna. Einhver viðsnúningur á sér stað. Í stað mynda af manneskjum birtast manneskjur sem myndir.
Málverkin taka á sig mannsmynd í gegnum liti og línur listamannsins; þau eru í mannslíki. Hugur okkar áhorfenda skáldar í eyðurnar og mótar persónur. Þetta eru ólíkir einstaklingar, hver með sín karaktereinkenni, fangaðir í mynd sem tjáir tilfinningu og jafnvel sögu. Rétt eins og listamaðurinn, köllum við fram ýmis minni – fólk sem við þekkjum, ljósmyndir úr fjölskyldualbúmum, sögupersónur úr kvikmyndum, portrettmyndir listasögunnar og þar fram eftir götunum. Málverkin á sýningunni eru frá 2013-17 og bera enga titla. Við höfum því fátt að styðjast við nema myndmál Ragnars og eigið hugarflug.
Ragnar er þrítugasti listamaðurinn sem sýnir í sýningarröð D-salar. Hann er fæddur árið 1977 og útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2010. Hann hefur haldið nokkrar einkasýningar, tekið þátt í samsýningum og í sumar tekur hann þátt í hinum Norræna tvíæringi, Momentum, í Noregi.
Í D-sal Hafnarhússins eru að jafnaði sýnd verk eftir listamenn sem ekki hafa áður haldið einkasýningar í stærri söfnum landsins. Markmið sýningaraðarinnar er að gefa efnilegum listamönnum tækifæri til að vinna innan veggja safnsins og beina athygli gesta að nýjum og áhugaverðum hræringum innan listheimsins. Á árinu 2017 eru áætlaðar alls fjórar sýningar í sýningaröðinni.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.