Sýningaropnun - D30 Ragnar Þórisson: Mannslíki
Sýningin Mannslíki eftir Ragnar Þórisson verður opnuð fimmtudaginn 16. mars kl. 17.00. Þetta er þrítugasta sýningin í D-salarröð Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi.
Segja má að málverkið taki á sig mannsmynd í gegnum liti og línur listamannsins Ragnars Þórissonar. Verkin eru opin og gefa til kynna lágstemmda hreyfingu bæði í tíma og rúmi þannig að svo virðist sem listamaðurinn reyni að fanga eitthvað sem auganu er dulið alla jafna. Myndheimur málverkanna er kunnuglegur en jafnframt framandi. Ragnar hefur engar sérstakar fyrirmyndir í huga í málverkum sínum, mannfólkið er allflest óþekkjanlegt, andlitsdrættir eru máðir, teygðir og margfaldaðir, líkamar huldir stórum litaflötum eins og kuflar. Umhverfi þeirra gefur sáralitlar upplýsingar, aðeins óljósa tilfinningu fyrir því að vera utandyra eða inni.
Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson.