Veldu ár
Gálgaklettur og órar sjónskynsins
Á sýningunni Gálgaklettur og órar sjónskynsins er að finna lítinn hluta af rúmlega 50 málverkum Jóhannesar S. Kjarvals (1885-1972) sem sýna tiltekinn stað í Garðahrauni á Álftanesi. Þangað sótti Kjarval í nærri aldarfjórðung til að mála nokkra steina og hraunstrítur. Hann kallaði staðinn „Gálgaklett“ en hinn raunverulegi Gálgaklettur er á allt öðrum stað í hrauninu. Ekki verður séð að þessi staður hafi neitt sérstakt upp á að bjóða umfram það sem almennt gerist í íslensku hrauni. Málverkin sýna klettinn í fjölbreytilegum myndum en varpa um leið ljósi á flókið viðfangsefni listamannsins.
Með því að nýta sér heimspekilegar hugmyndir fyrirbærafræðinnar um sjónskynið - sem byggir á samspili hugar og líkama einstaklingsins gagnvart heiminum - má rýna nánar í stefnumót Kjarvals við „Gálgaklett“. Tilvistarlegar vangaveltur um mörk ytri og innri veruleika endurróma gegnum alla sögu listarinnar. Því endurspeglar stór hluti sýningarinnar álíka tilraunir sem viðvarandi viðfangsefni listarinnar í íslensku samhengi. Valin verk fjögurra kynslóða íslenskra listamanna rekja endurtekin stef óra sjónskynsins frá Kjarval og samtímamönnum hans til samtímalistar dagsins í dag.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.