10. nóvember 2018 - 16:00

Sýningaropnun – Innrás IV: Margrét Helga Sesseljudóttir

Sýningaropnun – Innrás IV: Margrét Helga Sesseljudóttir
Staður viðburðar: 
Ásmundarsafn

Fjórði innrásarliðinn á sýningunni List fyrir fólkið í Ásmundarsafni er Margrét Helga Sesseljudóttir. Meðal þess sem Margrét nýtir í list sinni er fundið efni en einnig notast hún við sjálfa sig til þess að skapa skúlptúra og upplifanir. Verkin í Ásmundarsafni eru hluti af þríleik Margrétar sem kallast Ég var himnesk og kallast á við arkitektúr byggingarinnar. Verkin ráðast inn í rýmið, breyta því, eiga heima þar – en samt ekki.

Helga stundaði meistaranám við NCAD í Dublin og nam áður við Listaháskóla Íslands og hefur sýnt reglulega hér á landi og erlendis.

Sýningarstjóri er Sigurður Trausti Traustason.

Sunnudag 25. nóvember kl. 15.00 verður Margrét Helga með leiðsögn um sýninguna.

Fjórar INNRÁSIR hafa verið gerðar inn í sýninguna List fyrir fólkið á árinu 2018, þar sem völdum verkum Ásmundar Sveinssonar er skipt út fyrir verk starfandi listamanna eða þeir bæta verkum inn á sýninguna. Fyrsta innrásin var í höndum Guðmundar Thoroddsen, því næst kom Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter og nýlokið er sýningu á verkum Matthíasar  Rúnars Sigurðssonar og nú tekur Margrét Helga við. Öll vinna þau skúlptúra í ólík efni og veita verk þeirra áhugaverða sýn á þróun þrívíðrar myndlistar, efnisval og viðfangsefni.

Verð viðburðar kr: 
0