Veldu ár
William Morris: Alræði fegurðar!
Ég vil ekki list fyrir fáa fremur en menntun fyrir fáa eða frelsi fyrir fáa.
- William Morris, 1877.
Listasafn Reykjavíkur kynnir með stolti fyrstu stóru sýninguna á Íslandi á verkum breska hönnuðarins William Morris. Sýningin gerir skil fjölbreyttu ævistarfi Morris en hann fékkst bæði við hönnun, skáldskap og var framúrskarandi handverksmaður. Hann var sósíalískur aktívisti og hugmyndir hans um samfélag iðnbyltingarinnar þóttu byltingakenndar. Á sýningunni eru auk frumteikninga af munstrum Morris; útsaumsverk, húsgögn, fagurlegar skreyttar bækur, flísar auk verka eftir samferðamenn Morris á borð við Dante Gabriel Rossetti.
Morris (1834-1896) var listamaður, hugsuður, rithöfundur og samfélagsrýnir og hafði mikil áhrif á samtíma sinn. Hann skildi eftir sig sjónrænan menningararf og hugmyndafræði sem hafa haft áhrif allt til okkar daga. Tengsl Morris við Ísland eru áhugavert rannsóknarefni en hann ferðaðist hingað tvisvar á starfsævi sinni, árið 1871 og árið 1873. Morris varð fyrir miklum áhrifum í Íslandsheimsóknum sínum, heillaðist bæði af menningu og náttúru. Heimildir herma að hann hafi ætíð upplifað sig sem mann norðursins og lýsti það sér í óstöðvandi áhuga hans á íslenskum bókmenntum en ekki síður í ófáguðu útliti.
William Morris er líklega best þekktur sem hönnuður og skáld. Hann hóf nám í arkitektúr en sneri sér fljótt að öðru. Hann stofnaði fyrirtæki ásamt félögum sínum og framleiddu þeir vandaðar handgerðar vörur úr gæðaefnum; húsbúnað, veggfóður, vefnað og húsgögn en einnig glerglugga og flísar. Morris barðist gegn iðnvæðingu sem var að ryðja sér til rúms í Englandi og lagði mikla áherslu á gæði handverks og mikilvægi þess fyrir samfélagið og var talsmaður Lista- og handverkshreyfingarinnar (e. Arts and Crafts Movement). Hann tók virkan þátt í stjórnmálum og var einn af stofnendum fyrirrennara breska Verkamannaflokksins. Allt sem William Morris gerði var innblásið af byltingarkennd. Hann leitaðist við að gera heiminn og líf fólks betra með hönnun sinni - með því að láta fegurðina ráða!
Morris gaf einnig út bækur og vann að þýðingum á Íslendingasögunum í samvinnu við Eirík Magnússon fræðimann í Cambridge. Íslendingasögurnar urðu honum uppspretta og yrkisefni í eigin skáldskap og eru mörg ljóða hans byggð á efni Íslendingasagna. Áhugi samtímamanna á Íslendingasögunum kom fram víðar, meðal annars hjá Tolkien og Wagner.
Sýningin er unnin í samstafi við William Morris Gallery í London og Millesgården í Stokkhólmi en hún hefur einnig verður sett upp í Nivaagaard safninu í Nivå skammt frá Kaupmannahöfn Danmörku. Í Svíþjóð og Danmörku sló sýningin öll aðsóknarmet.
Þetta er fyrsta sýningin sem sett er upp hérlendis og gerir skil fjölbreyttum ferli Morris. Meðal annars verða sýndar frumteikningar af munstrum Morris, veggfóður og vinnsluaðferðir, málverk, teikningar, steindir gluggar, húsgögn og veggteppi auk verka samferðamanna Morris.
Íslandstengingunni eru gerð sérstök skil á sýningunni á Kjarvalsstöðum sem er viðbót við það sem sýnt hefur verið á hinum sýningarstöðunum. Á sýningunni verða gripir sem Morris tók með sér héðan og höfðu áhrif á þann myndheim sem hann skapaði, þeirra á meðal er útskorið horn og önnur áhöld úr horni.
Auk verka Morris verða á sýningunni verk eftir listmálarann Dante Gabriel Rossetti (1828-1882), en hann var mikill áhrifavaldur í lífi Morris. 22 ára gerðist Morris lærlingur hjá Rossetti og bjuggu þeir saman ásamt öðrum félaga í listinni. Í framhaldi kynnist Morris verðandi eiginkonu sinni, Jane Burden (1839-1914), sem var módel hjá þeim félögum. Rossetti og Burden hefja ástarsamband sem var opinbert leyndarmál. Þegar Morris fer í sínar löngu ferðir til Íslands 1871 og 1873 búa þau öll undir sama þaki og er það tekið fram í flestum heimildum um Morris að hann hafi farið vitandi að hann skildi konu sína eftir með ástmanni sínum.
Á sýningartímanum verður boðið upp á leiðsagnir sérfræðinga um sýninguna auk þess sem efnt verður til fjölskyldudagskrár og námskeiða fyrir ólíka hópa.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.