29. apríl 2021 - 19:30

Sýning heimildarmyndar: Last days of the Arctic FULLBÓKAÐ

Sýning heimildarmyndar - Last days of the Arctic Hafnarhús - fjölnotasalur
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Sýning á heimildarmyndinni Last days of the Arctic í fjölnotasal Hafnarhússins.

FULLBÓKAÐ ER Á SÝNINGUNA

Myndin fjallar um ljósmyndarann Ragnar Axelsson og feril hans. Í myndinni er Ragnari fylgt eftir á ferðalögum hans um Ísland og Grænland, þar sem hann heimsækir meðal annars íslenska bændur og grænlenska veiðimenn. Myndin veitir í senn innsýn í starf Ragnars og er um leið heimild um lífshætti sem eru að hverfa á norðurhjara veraldar. Myndin er framleidd af Sagafilm í leikstjórn Magnúsar Viðars Sigurðssonar og er 90 mínútna kvikmynd í fullri lengd. Myndin hefur hlotið lof gagnrýnenda og verið sýnd á kvikmyndahátíðum og sjónvarpsstöðvum víða um heim. Hún hefur hlotið Edduverðlaun og verið tilnefnd til fjölda alþjóðlegra verðlauna.

Á undan sýningu myndarinnar mun Einar Falur Ingólfsson ljósmyndari og fyrrum samstarfsmaður Ragnars Axelssonar halda stutta kynningu. Einar Falur hefur lengi unnið sem blaðamaður á Morgunblaðinu en einnig sinnt listgrein sinni, ljósmyndun, með margvíslegum hætti. Hann hefur haldið margar sýningar á verkum sínum, hérlendis og erlendis, verið sýningarstjóri að ljósmyndasýningum, ritstýrt eða komið að gerð ljósmyndabóka, sjálfur skrifað bækur, kennt áfanga í ljósmyndun við hina ýmsu skóla og haldið fyrirlestra víða um heim.

Í meira en 40 ár hefur Ragnar Axelsson myndað fólk, dýr og landslag afskekktustu svæða norðurslóða, þar með talið hér á landi, í Síberíu og á Grænlandi. Hann vinnur nú að því að stækka þetta svæði og ferðast mjög víða í leit sinni að myndefni. Í ljósmyndaverkum sínum og ljósmyndabókum endurspeglar hann óvenjuleg tengsl íbúa norðurslóða við öfgakennt umhverfi sitt – tengsl sem eru nú stöðugt að breytast vegna breytinga á loftslagi. Ragnar skrásetur hvernig þessar breytingar hafa áhrif á líf fólks og dýra og hvaða ógn býr að baki hlýnun jarðar.

Þar sem það er fimmtudagurinn langi er enginn aðgangseyrir!