Veldu ár
Ragnar Axelsson: Þar sem heimurinn bráðnar
Í meira en 40 ár hefur Ragnar Axelsson myndað fólk, dýr og landslag afskekktustu svæða norðurslóða, þar með talið hér á landi, í Síberíu og á Grænlandi. Hann vinnur nú að því að stækka þetta svæði og ferðast mjög víða í leit sinni að myndefni. Í ljósmyndaverkum sínum og ljósmyndabókum endurspeglar hann óvenjuleg tengsl íbúa norðurslóða við öfgakennt umhverfi sitt – tengsl sem eru nú stöðugt að breytast vegna breytinga á loftslagi. Ragnar skrásetur hvernig þessar breytingar hafa áhrif á líf fólks og dýra og hvaða ógn býr að baki hlýnun jarðar.
Ragnar Axelsson – RAX (f. 1958) fór strax að taka ljósmyndir á unga aldri. Hann lærði ljósmyndun hjá Ingibjörgu Kaldal og varð fastráðinn ljósmyndari hjá Morgunblaðinu aðeins 18 ára að aldri. Með tímanum þróaði hann myndmál sitt sem heimilda- og landslagsljósmyndari og um miðjan níunda áratug síðustu aldar tók hann að vinna að skrásetningarverkefni sem seinna myndaði uppistöðuna í bókum hans um norðurslóðir: Andlit norðursins (2004/2016), Veiðimenn norðursins (2010), Fjallaland (2013) og Hetjur norðurslóða (2020).
Ljósmyndir hans tóku einnig að birtast í alþjóðlegum prentmiðlum, svo sem LIFE, Time, GEO, El País, Newsweek, Stern, Polka og ótal fagtímaritum. Frá aldamótum má heita að ljósmyndir hans séu stöðugt sýndar einhvers staðar í heiminum og stórar sýningar á myndum hans hafa ferðast um Evrópu á undanförnum árum. Ragnar hefur hlotið margháttaðan heiður fyrir verk sín, svo sem fjölmiðlaverðlaun umhverfisráðuneytisins, ýmis verðlaun Blaðamannafélags Íslands, útflutningsverðlaun Íslandsstofu, Oscar Barnack verðlaun myndavélaframleiðandans Leica og fleiri viðurkenningar.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.