Veldu ár
Samkeppni um útilistaverk í Vogabyggð
Á Kjarvalsstöðum stendur nú yfir sýning á þrettán tillögum sem bárust í samkeppni um útilistaverk í Vogabyggð.
Sigurtillagan, Pálmatré, eftir Karin Sander er þar til sýnis auk Endalausa ljósastaursins, eftir A Kassen, en dómnefndin lagði til a ðReykjavíkurborg festi kaup á því verki einnig.
Reykjavíkurborg efndi til samkeppninnar í apríl 2018 og lýstu 165 myndlistarmenn yfir áhuga á að taka þátt í henni. Samkeppnin var auglýst alþjóðlega og bárust 70% umsókna í forvalshluta samkeppninnar frá listamönnum búsettum erlendis.
Samkeppnin var haldin samkævmt samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM) - lokum samkeppni með opnu forvali.
Þeir listamenn sem valdir voru til þátttöku í samkeppninni voru listamannahópurinn A Kassen, Alicja Kwade, Carl Boutard, Elín Hansdóttir, Finnbogi Pétursson, Karin Sander, Rósa Gísladóttir og Tomás Saraceno.
Þessum listamönnum var falið að skila inn einni til tveimur tillögum hver, en jafnframt var heimilt er að skila tveimur útgáfum af sömu tillögu. Alls bárust þrettán gildar tillögur.
Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með listaverkum í Reykjavík og stendur að baki samkeppninni auk þess að vera tengiliður við hönnuði, svið og deildir Reykjavíkurborgar.
Í forvalsnefnd sátu Ólöf Kristín Sigurðardóttir, formaður forvalsnefndar, skipuð af Listasafni Reykjavíkur, Elsa Yeoman, formaður Menningar- og ferðamálaráðs, skipuð af menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkurborgar og Elísabet Brynhildardóttir, myndlistarmaður tilnefnd af Sambandi íslenskra myndlistarmanna (SÍM).
Í dómnefnd sátu Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi, formaður dómnefndar, skipaður af umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar, Signý Pálsdóttir, fv. skrifstofustjóri menningarmála , skipuð af menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkurborgar, Ólöf Nordal, myndlistarmaður tilnefnd af innkaupanefnd Listasafns Reykjavíkur, Baldur Geir Bragason, myndlistarmaður, tilnefndur af Sambandi íslenskra myndlistarmanna (SÍM) og Ragnhildur Stefánsdóttir, myndlistarmaður, tilnefnd af Sambandi íslenskra myndlistarmanna (SÍM).
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.